Ég veit ekki alveg hvað mönnum gengur til með að vilja - TopicsExpress



          

Ég veit ekki alveg hvað mönnum gengur til með að vilja stórskipahafnir, olíuhreinsistöðvar og stórfellda iðnaðarstarfsemi í undurfögrum íslenskum fjörðum og flóum. Svo ekki sé minnst á fjörð á norðausturlandi sem liggur óvarinn fyrir opnu norður Atlantshafinu og útaf honum eru gjöful fiskimið. Finnafjörður tilheyrir Langanesbyggð. Þar voru 332 á kjörskrá fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Aðeins 198 manns greiddu atkvæði (auðir seðlar voru 3 og ógildir 7). Ég hef alltaf sett stórt spurningamerki við það, hvort leyfa eigi svo fámennum sveitarfélögum að ráðskast með íslenska náttúru með framkvæmdum sem geta haft áhrif langt út fyrir sveitarfélagið og jafnvel á allt landið og miðin. Langanesbyggð er eitt þeirra sveitarfélaga sem Halldór Jóhannsson, hinn alræmdi talsmaður Huangs Nubo, hefur gert aðalskipulag fyrir og teiknað inn stórskipa- eða umskipunarhöfn. Það hefur hann líka gert á Vopnafirði og í Fjallabyggð. Fyrir ómakið hafa sveitarfélögin þurft að greiða Halldóri nokkra tugi milljóna. Guðmundur Vilhjálmsson frá Syðra-Lóni sem er í útjaðri byggðarinnar á Þórshöfn hefur, ásamt fleirum, haldið úti öflugri andstöðu við aðalskipulagið - enda átti að leggja flugbraut yfir æskuheimili hans og gera æðar- og kríuvarpið fyrir neðan bæinn að almennu útivistarsvæði fyrir Þórshafnarbúa. Að eigendum og ábúendum jarðarinnar algerlega forspurðum. Vegna andstöðu Guðmundar, Reimars og fleiri, ábendingum þeirra um lögbrot og kærum til stjórnvalda hefur aðalskipulagið ekki ennþá verið samþykkt. Hér er því farið fram með hinu séríslenska túrbínutrixi - framkvæma og fjárfesta áður en nokkur leyfi liggja fyrir og bera svo fyrir sig að ekki sé hægt að hætta við af því búið sé að vinna svo mikið í málinu og eyða svo miklum peningum. Ekki veit ég hvort á að framkvæma eignarnám á svæðinu. Eignarnám mun vera bundið við almannahagsmuni - en hér eru engir almannahagsmunir í húfi. Alls engir - nema síður sé. Slíkir hagsmunir hljóta ævinlega að felast í ósnortinni náttúru landsins. En fróðlegt væri að heyra frá mér kunnugri um téða almannahagsmuni. Horfið á þessar tvær fréttir frá í gær og í kvöld.
Posted on: Fri, 28 Jun 2013 19:57:01 +0000

Recently Viewed Topics




© 2015