Fyrst að ekki allir komast í Moggann þá birti ég hér - TopicsExpress



          

Fyrst að ekki allir komast í Moggann þá birti ég hér minningargreinina sem ég skrifaði um mömmu í heild sinni. Vinsamlegast lesið og hjálpið mér að muna eftir frábærri manneskju. "Skilyrðislaus ást er ekki eitthvað sem maður fær frá mörgum um ævina en ég var nógu heppinn að fá að kynnast því fyrirbæri í gegnum mömmu mína, Helgu Magnúsdóttur. Sama hvaða áhugamál ég tók mér fyrir, sama hvaða stefnu ég ákvað að taka í lífinu stóð hún þétt á bakvið mig með endalausan stuðning og góð ráð. Það var málið með mömmu, hún vissi allt um allt og með andláti hennar vil ég halda að Íslendingar hafi misst eina af okkar best lesnu manneskjum. Uppáhaldsminningarnar mínar eru næturnar þar sem við sátum og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar – heimspeki, stjórnmálasögu, bíómyndir, málfræði o.s.frv. en þó aðallega um bækur og ég held að ég hafi lært meira af henni heldur en öllum kennurum sem ég hef haft til samans. Oftar en ekki enduðu þessar nætur á því að ég fór í skólann, sólin komin upp og ein stór ráðgáta hvert þessir klukkutímar hefðu farið. Ef ég finn einhverntímann betri samræður en þessar þá tel ég það heppni, ef ekki kraftaverk. Ég held að engum hafi líkað illa við mömmu. Hún dæmdi engan en var laus við alla tilgerð, gat haldið uppi góðum samræðum við hvern sem hún hitti og var matargesturinn sem enginn vildi að færi. “Smá meira vín, Helga mín?” Í stuttu máli, einstaklega skemmtileg og viti borin manneskja. Sögurnar sem hún sagði voru aldrei neitt minna en áhugaverðar, orð sem ég tel vera besta hrósið þegar kemur að samræðum og sama hvert viðfangsefnið var tókst henni alltaf að láta mann hlæja upphátt. Hún var ótrúlega vel máli farin og þegar sögunum lauk kom sama tilfinningin og þegar maður klárar góða bók – maður var betri fyrir vikið, maður hafði lært eitthvað nýtt en þó var maður hálfleiður yfir því að sagan væri búin. Hún fæddi mig, klæddi mig, hýsti mig og gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag – ég get aldrei þakkað henni nóg. Sá stuðningur sem hún sýndi mér, ótakmarkaður og heiðarlegur, er mikilvægasta gjöf sem ég hef verið nógu heppinn að fá. Þetta var manneskjan sem kenndi mér að vera ég sjálfur án þess að troða inn á mig eigin skoðunum eða lífsspeki – hún leiddi mig að því sem hentaði mér best og leyfði mér að taka mínar eigin ákvarðanir þegar kom að siðferði mínu og sjálfsköpun. Við gátum, þegar allt kom til alls, talað við hvort annað um allt og aldrei með neinu minna en sameiginlegri virðingu – hugtaki sem hún kenndi mér að rugla aldrei saman við ótta. Öll mín vandamál, allar mínar áhyggjur, allt. Aldrei talaði hún niður til mín, sama hvað, en gat alltaf gefið ráð sem ég vissi að ég gæti treyst. Áður en hún varð bráðkvödd í svefni þann 19. Ágúst síðastliðinn, 59 ára að aldri, fékk ég sem betur fer eitt síðasta spjallið við hana mömmu. Allt var rætt í það sem reyndist vera seinasta skiptið og þrátt fyrir að hafa ekki fengið að kveðja hana voru þetta betri endalok á sambandi okkar en nokkuð sem ég get ímyndað mér. Orð geta ekki lýst því hve vænt mér þótti um hana og hversu mikið hennar verður saknað. Áhrifin sem hún hefur haft á mig, flest þeirra til góðs, munu fylgja mér til æviloka. Ef svo ólíklega vill til að það sé líf eftir dauðann vona ég að ég geti fundið hana aftur. Ég var að lesa frábæra bók sem ég þarf að segja henni frá. "
Posted on: Thu, 19 Sep 2013 19:29:57 +0000

Trending Topics




© 2015