Silja Dögg Gunnarsdóttur, þingmaður Framsóknarflokksins, - TopicsExpress



          

Silja Dögg Gunnarsdóttur, þingmaður Framsóknarflokksins, talaði um það á Alþingi á dögunum að koma þyrfti upp sérstöku eftirliti með hælisleitendum og flóttafólki á Íslandi: „Mörgum þykir óþægilegt að þessi hópur fólks sé án eftirlits á meðan staða þeirra er könnuð,“ sagði Silja sem vildi meina að sumir hælisleitendur væru „ósamvinnuþýðir“ og því þyrfti að koma á fót sérstöku eftirliti með þeim. Í kjölfar þessara ummæla framsóknarkonunnar varð mér hugsað til viðtals sem ég tók fyrir rétt rúmum þremur árum við hælisleitandann Yassin Hassan frá Sómalíu. Lýsing hans á aðbúnaði flóttafólks í Hal Far flóttamannabúðunum á Möltu hafði djúpstæð áhrif á mig: „Umhverfis okkur var stór veggur og umhverfis hann var gaddavírsgirðing og umhverfis hana var önnur gaddavírsgirðing. Blaðamenn mega koma að ystu gaddavírsgirðingunni en þeir mega ekki koma að þeirri næstu vegna þess að þar eru stórir hundar. Á daginn eru 16 hundar á verði í kringum búðirnar en á næturnar eru þeir 22. Þeir gefa þér rúm og teppi og mánaðarlega gefa þeir þér sápu svo þú getir þvegið þér og fötin þín. Þú getur ekki hringt í fjölskylduna. Þú getur ekki farið út. Þú getur ekki spilað fótbolta. Það eina sem þú getur gert er að sofa og borða. Þú spyrð lögreglumennina hvers vegna þú sért í haldi og þeir segja þér að það sé vegna þess að þú spyrjir of margra spurninga, þú spyrð þá aftur og þeir láta hundinn urra á þig, ef þú heldur áfram að spyrja taka þeir þig og setja í lítið herbergi þar sem þú sérð ekkert. Þar verðurðu að standa vegna þess að þar er of lítið pláss til þess að setjast. Þú getur ekki farið á klósettið. Þú færð vatn á þriggja tíma fresti. Þarna ertu látinn dúsa í 28 tíma þar til þér er sleppt, en þá eru fæturnir svo dofnir að þú getur ekki staðið. Ég man að ég hugsaði stundum: Er þetta Evrópa í dag?“ ... „Það sem þú upplifir er að fólk verður geðveikt. Það er verið að fara með fólk á spítalann á hverjum degi. Áður en ég fór fyrirfóru tveir hælisleitendur sér vegna þess að þeir vissu ekkert hvert þeir áttu að fara eftir að umsókn þeirra hafði verið hafnað. Það sem þú upplifir er að þú sérð fólk drekka áfengi hverja einustu nótt og þú spyrð hvað það sé eiginlega að gera, hvers vegna það sé að eyðileggja líf sitt? Og fólk svaraar: „Við eigum okkur ekkert líf, það er engin leið héðan, Evrópa ákveður þetta allt fyrir okkur. Við getum ekki farið aftur til Sómalíu, þannig að hvað eigum við að gera? Þetta er það eina sem við höfum.“ Þú upplifir fullt af hlutum. Sem dæmi þá upplifir þú að sjá móður sem á tveggja ára barn hinum megin girðingarinnar, móður sem hrópar yfir til dóttur sinnar á hverju kvöldi af því að hún var tekin frá móður sinni og færð yfir í opnu búðirnar. Klikkaðar sögur. En það fyrsta sem þú þarft að hugsa er: Komdu þér í burtu! Farðu og finndu þér annan stað. Það hlýtur að vera til betra líf en þetta.“
Posted on: Sun, 24 Nov 2013 23:50:06 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015