The Great Gatsby er með athyglisverðustu myndum þessa árs. - TopicsExpress



          

The Great Gatsby er með athyglisverðustu myndum þessa árs. Ekki aðeins er það vegna upprunaefnisins, sem er gjarnan talið vera með mestu og bestu bókmenntaverkum bandarískrar menningar (F. Scott Fitzgerald skrifaði), heldur einnig vegna úrvinnslu þess í höndum Baz Luhrmann. Persónulega er ég ekki vel kunnur hans fyrri verkum, en það loðir við hann mikill aðdáendahópur og um leið stór hópur fólks sem vill ekkert af honum sjá - stíllinn hans er vægast sagt sérstakur. Hvað sem því víkur er TGG blanda af furðulegheitum Baz og glæsileika/tómleika eftirstríðsáranna, og sú samsetning er á sama tíma helsti kostur og helsti galli myndarinnar. Sagan er að vissu leyti einföld að forminu til. Nick Carraway er ungur og metnaðarfullur nemi (leikinn af Toby Maguire), nýfluttur austur til New York til náms og búsettur í West Egg á eyju rétt hjá Manhattan. Fyrri heimsstyrjöldin hefur liðið hjá, nýir tímar hafa byrjað með stríð að baki og óvissa framtíð; fólk lifir í núinu, í algleymingi um hvað næsti dagur ber í skauti sér. Í þessum glundroða kynnist Nick nágranna sínum, manni að nafni Jay Gatsby (Leonardo DiCaprio): dularfullan mann sem hýsir munúðarfullar veislur í glæsivillunni sinni. Þó frásögnin sé frá sjónarhorni Nick er Gatsby í raun sá maður sem er mest áberandi í myndinni með glæsileika sínum og leyndardómum. Það er einkum óljósa samband hans við Daisy Buchanan (Carey Mulligan) sem dregur Nick inn í atburðarrásina, enda eru þau Daisy bundin fjölskylduböndum. Það sem svo á sér stað breytir öllum hugmyndaheimi hans, hvernig hann horfir á heiminn, upplifir hann og skynjar. Ég ætla ekki að fara í gríðarlegar pælingar varðandi boðskap og myndmál sögunnar, enda eru það persónulegar pælingar um kringumstæður, líf og venjur Gatsby sem ljá myndinni töfraljóma. Sagan er virkilega vel skrifuð, og ástarsaga TGG er með þeim áhrifameiri sem ég hef kynnst. Bandaríski draumurinn er hinn eilífi bakgrunnur frásagnarinnar, það hvernig fólki mistekst að komast að honum, eða meira að segja skilja í hverju hann felst. Veislur Gatsby eru um leið glæsilegar og fáránlegar, uppfullar af ljósum, strimlum, áfengi, tónlist og fleiri táknum ríkidæma og allsnægtar - neysluhyggjan er allsráðandi. Hins vegar fær maður aldrei þá tilfinningu að gestir veislunnar fái neitt úr þessum skemmtunum, enda felst hamingjan ekki einvörðungu í uppfyllingu skammtímalöngunar. Það sem ber að muna er að Gatsby endurspeglar ekki þá menningu sem trúir að tilgangur lífsins sé að lifa í núinu; það er eiginlega þveröfugt. Gatsby er maður sem þjáist af fortíðarþrá á háu stigi en nýtir sér neysluhyggju samtímans til að breyta fortíð í nútíð, hunsandi allar fortölur. Þetta gerir hann til að uppfylla draum sinn um hina fullkomnu ást, draumur sem hefur kraumað í honum sem leif frá hans æskuárum. Baz (sem er leikstjóri og einn handritshöfunda) stendur sig að vissu leyti vel í að koma saman andstæðum bókarinnar (dýrkun fortíðar og nútíðar), en virðist ekki fullkomlega skilja sjálfan tímarammann. Veislurnar eru vissulega bæði ótrúlegar og sviplausar, en þó fólst meira í þeim en bara hopp, skopp, dansar og tónlist eins og myndin túlkar þær. Á sama tíma er notkun hans á nútímatónlist frekar ankannaleg, þar sem rapp er spilað samhliða síðkjólum og jakkafötum. Allt í lagi að hafa einhverja tímaskekkju en notkun hennar er ekki samfelld og virðist þar af leiðandi ekki hafa neinn tilgang. Einnig er fyrsti helmingur myndarinnar slakari en sá síðari, meðal annars vegna þess að þar litast frásögnin af alltof miklum hraða og absúrdisma. Samtöl eru blönduð saman, persónukynningar vara í nokkrar sekúndur og öllu er fleytt fram með litadýrð en litlu öðru. Erfitt að lýsa því alveg í orðum, en hann Baz hefði getað slakað aðeins betur á í að koma til skila aðstæður persónanna. Hins vegar er ekki hægt að taka af honum þá staðreynd að myndin er glæsileg í alla staði varðandi útlit. Búningarnir eru ótrúlegir, byggingarnar stórglæsilegar og leikmunir eru ekkert annað en töfrandi. Í leikstjórasætinu er Baz svo í essinu sínu, hann nær fram ótrúlegum frammistöðum frá nær öllum helstu leikurunum. Þetta er þó auðvitað líka vegna hæfileika téðra leikara, en þar eru helst Leonardo DiCaprio, Carey Mulligan, Joel Edgerton (leikur Tom Buchanan) og Toby Maguire áberandi. Leo er stórkostlegur, fullkomin holdgerving auðkýfingsins Gatsby í alla staði. Það nægir að sjá bros hans í myndinni til að skilja að hér er á ferðinni maður sem skilur til hvers er ætlast af honum. Toby, sem var ekki beint uppáhald hjá mér í Spiderman-myndunum, stendur sig mjög vel hér, og það er í raun merkilegt hversu eftirminnilegur hann er þrátt fyrir að persóna hans sé ekki eins áberandi og maður myndi halda. Parið Daisy og Tom Buchanan eru síðan leikin af Mulligan og Edgerton með glæsibrag, og er Edgerton sérstaklega skilvirkur sem hinn eiginlegi "skúrkur" myndarinnar. Flestir aðrir leikendur standa sig svo vel, en það tæki of mikið pláss að fara ítarlegar í þá alla. Myndin er langt frá því að vera lastalaus. Eins og áður var nefnt nær Baz ekki að koma tíðarandanum óbrengluðum frá sér, og myndin væri enn betri ef meira hefði verið lagt upp úr því að koma henni alveg inn í 3. áratug síðustu aldar. Fullmikill asi og ruglingur er til staðar í fyrsta klukkutíma myndarinnar og sumar persónur falla í valinn vegna þess (til dæmis er hlutur Jordan Baker nær enginn hér). Hins vegar er síðasti hálftími myndarinnar með eftirminnilegustu bíóupplifunum þessa árs, og ég mæli hiklaust með því að fólk sjái þessa mynd fyrir þær 30 mínútur einar sér. Sagan sem gaf af sér myndina er virkilega mögnuð, leikurinn er frábær og ekki er hægt að segja annað en að myndin sé flott á að líta. Svo færsla TGG yfir á hvíta tjaldið er að þessu sinni farsæl, þó nokkrir gallar spretti upp á leiðinni. imdb/title/tt1343092/
Posted on: Thu, 04 Jul 2013 11:34:54 +0000

Recently Viewed Topics




© 2015