Ég er í stöðugu trauma. Fæ traumakast nokkrum sinnum á dag. - TopicsExpress



          

Ég er í stöðugu trauma. Fæ traumakast nokkrum sinnum á dag. Íslenska orðið yfir þetta er áfall. Það nær ekki alveg merkingu enska orðsins. En trauma er ástand sem orsakast af því að verða fyrir eða verða vitni að skelfilegum atburðum, svo skelfilegum að hegðun mann breytist, maður verður dofinn og hræddur, utan við sig og skjálfandi, sefur lítið og á erfitt með að fúnkera í almennu samfélagi fólks. Maður upplifir samfélagið sem skelfilegt. Hræðilegt. Hryllilegt. Þessir skelfilegu atburðir fylgja manni út í daglega lífið. Maður býst ósjálfrátt við því að ókunnugt fólk úti á götu taki sig til og geri eitthvað við mann. Maður sér skrattann í hverju horni. Heimurinn er við það að farast hvað og hverju og fólk er fjandsamlegt. Jafnvel þó það sé brosandi þá veit maður ekki betur en það ætli sér illt. Engum er treystandi. Engu er treystandi. Þeir uppgötvuðu þetta ástand eftir fyrri heimstyrjöldina. Þá fékk það nafn og stöðu innan fræðanna: Post traumatic stress disorder. Það lagðist á hermenn sem höfðu gengið í gegnum helvíti á vígvöllunum. Horft upp á menn skotna í tætlur við hlið sér. Orðið fyrir sprengjuárásum. Jafnvel misst heilu útlimina. Þeir sem urðu fyrir sprengjum áttu það til að vera með stöðuga kippi alla tíð eftir árásina. Jafnvel þó að ekki sæi á líkama þeirra eftir sprenginguna. En hvellurinn og blossinn höfðu svo svakaleg áhrif á taugakerfið að það ofhitnaði. Brann eiginlega yfir. Svo að kerfið upplifði sig í stöðugri hættu og var alltaf að forðast sprenginguna . Jafnvel mörgum árum síðar á fallegum sumardögum var taugakerfi þeirra ennþá statt í sprengjuhríðinni. Smá klapp setti af stað skelfingarviðbrögð. Allt fór til fjandans mörgum sinnum á dag. En áfallastreituröskun - sem er hin íslenska þýðing á ástandinu - þarf ekki alltaf að vera sýnileg. Hún er undirliggjandi en hefur stöðug áhrif á hegðun og líðan fólks. Hún dregur burt frá þeim lífsgæðin - sýgur úr manni lífskraftinn svo maður nær því ekki að verða sáttur við lífið og tilveruna. Hún er þarna. Fólkið reynir eftir fremsta megni að brosa og láta eins og ekkert sé en undir niðri er taugakerfið tilbúið. Það þarf lítið til að setja það af stað. Mín áföll - þessi sem eru alltaf að koma fyrir - eru ekkert einsdæmi. Þetta eru ekki persónuleg áföll. Þetta trauma er ekki einskorðað við mig. Það má vel vera að einhversstaðar í fortíðinni hafi ég upplifað ástand sem var traumatískt og að það fylgi mér dags daglega. Það má vel vera. Er jafnvel bara líklegt. En hvort sem svo var eða ekki þá eru það annarskonar áföll sem eru að hrjá mig. Núna áðan var ég að lesa um strák í Bretlandi sem var myrtur. Hann var fjögurra ára. Hann var myrtur af móður sinni og kærasta hennar. Ekki bara í hendingskasti - heldur tók morðið marga mánuði - jafnvel mörg ár. Hann var pyntaður af móður sinni, fyrir honum var eitrað og hann fékk ekki að borða. Ég fékk smá traumakast. Í smá stund fór hugurinn á skrið og ég fylltist skelfingu yfir þjóðfélaginu sem við búum í. Ég fór að hugsa um fólk sem lítur svolítið út eins og foreldrar stráksins - en af þeim var mynd - og hugurinn fór í það að leggja andlitin á minnið. Síðan einhverntíma ef ég sé fólk sem líkist þessu foreldrum þá fara viðvörunarbjöllurnar líklega að hringja. Ég verð kannski löngu búinn að gleyma fréttinni en ógnin er enn til staðar innst í hugarskotum mínum. Ósjálfráða varnarkerfið fer í gang og undir niðri fer mig að gruna að fólkið sem líkist foreldrunum séu morðingjar og skelfilegt fólk. Ég man þegar ég var krakki og ég sá myndirnar af svöngu börnunum úti í Afríku. Þau voru með bumbu. Mér fannst það skrítið að svöng börn væru með bumbu. En þau voru annaðhvort hljóð og þegjandi -störðu í annarlegu ástandi út í loftið - eða þá að þau grétu. Á þeim skriðu flugurnar. Skriðu í augun á þeim og í munninn á þeim og þau höfðu ekki fyrir því að bægja þeim í burtu. Þá fékk ég traumakast. Það var alvarlegt traumakast. Ég grét með börnunum í Afríku. Ég hugsaði voða mikið um börnin í Afríku sem fengu ekkert að borða. Sem voru alltaf að deyja úr hungri. En ég, smástrákur einhversstaðar á Íslandi, gat voðalega lítið gert fyrir öll þessi börn. Samt var ég allur af vilja gerður. Ég vildi hjálpa öllum heiminum. Gefa öllum þessum svöngu börnum að borða. Matinn minn borðaði ég með skömm. Ég skammaðist mín fyrir að geta borðað mat meðan hin gátu það ekki. Stöðugt voru svöngu börnin í sjónvarpinu. En smátt og smátt fór ég að venjast þessu. Hætti að taka eftir því hvað þau voru svöng og hvað þau áttu bágt. Svo að nú þegar ég sé auglýsingar frá Hjálparstofnun kirkjunnar þá kippi ég mér ekkert upp við það lengur. Tek varla eftir því. En nóg var af traumanu. Þessum fínu ástæðum til að fá kast. Myndir af gyðingum í útrýmingarbúðum. Myndir af líkum í fjöldagröfum. Myndir af svöngum kínverjum. Myndir af gúlögum. Myndir af fólki að drepa annað fólk við hverskyns tilefni. Þetta var að vísu ekki jafn flott og grafískt og í bíó. Þar dóu allir miklu flottar. Sprungu í loft upp og flugu. Köstuðust aftur á bak við að fá í sig kúlu. En smátt og smátt fór mér að finnast lítið til þessa koma. Ég hef líka séð svo mikið af morðum í sjónvarpinu - mest plat að vísu - en líka allskonar önnur morð sem manni eru sýnd aftur og aftur. Ég hef séð heilu skipsfarmana af líkum. Rotnandi líkum. Ferskum líkum. Líkum af gamalmennum. Fullorðnu fólki. Börnum. Sundurskotnum líkum af fólki á öllum aldri. Líklega tugi þúsunda af líkum fólks sem hefur verið drepið á skelfilegan hátt. Svo núna þá tek ég varla eftir því að sjá svona myndir. Þær eru daglegt brauð. En til þess að ég hafi nú áhuga á fréttum og til þess að ég fái mín daglegu traumaköst þá eru fjölmiðlarnir duglegir við að finna svoleiðis efni. Í gær var það tólf ára stelpa sem var nauðgað af þremur mönnum í fjóra daga. Í fyrradag var það viðtal við stelpu sem hafði verið neydd út í vændi. Í dag er það fjögurra ára drengur sem var myrtur af móður sinni. Um daginn var það Castro sem hélt konum föngnum í húsinu sínu í mörg ár. Um jólin var það nauðgunin í Delhi á Indlandi. Í hvert skipti fæ ég smá áfall. Örlítið trauma. Fyllist viðbjóði á fólki og heiminum. Spyr sjálfan mig „af hverju?“ aftur og aftur. Nokkrum sinnum á dag. Fjölmiðlarnir eru samir við sig. Þeir sáu að hópnauðgunarfréttir frá Indlandi voru „hit“. Það skoðuðu þær allir. Þær voru vinsælar. Mest lesnar. Svo þeir fóru að birta fleiri hópnauðgunarfréttir frá Indlandi. Enda er af nógu að taka í Indlandi. Þar búa fjórfalt fleiri en í Bandaríkjunum. Þar er fátæktin mikil. Þar er samfélagið margslungið. Þar eiga sér stað allskyns glæpir af öllum toga á hverjum degi. En eftir að hafa lesið þrjár til fjórar fréttir af hópnauðgunum á Indlandi þá fer maður að missa áhugann. Lesendur fara að missa áhugann. Þetta er ekkert nýtt. Svo það þarf að finna eitthvað meira krassandi. Eitthvað sem hreyfir virkilega við fólki. Allir leita blaðamennirnir að „hittinu“. Þeir vilja slá í gegn. Koma með hræðilegustu söguna. Hryllilegustu aðstæðurnar. Skelfilegustu lýsingarnar. Það er nóg af slíku í þessum heimi. Mest lesnu fréttirnar eru alltaf skelfilegustu fréttirnar. Ég býst við að innan nokkurra ára eigi nauðgunarfréttir ekki eftir að hreyfa við mér. Jafnvel ekki skelfilegar fréttir af barnsmorðum úti í heimi. Þá verð ég kominn með skráp fyrir slíkum fréttum. Hvernig fréttirnar verða þá veit ég ekki. En mig grunar að þær verði enn skelfilegri og hryllilegri. Sagðar á mun grafískari hátt. Kannski verður hægt að sjá allt blóðið í þrívídd. Skoða líkin frá öllum sjónarhornum. Hlusta á morðingjana segja frá atburðunum með bros á vör. Þá verðum við komin með skráp gegn venjulegum nauðgunarfréttum. Venjulegum morðum. Litlu fjöldamorði úti í heimi. Okkur er alveg sama. Við venjumst þessu. Okkur fer að finnast þetta eðlilegt ástand. Því nýju skelfingarnar eru svo miklu meira spennandi.
Posted on: Thu, 01 Aug 2013 13:15:28 +0000

Recently Viewed Topics




© 2015