Ég hef sett inn nokkrar sögur af fólki sem að hefur haft - TopicsExpress



          

Ég hef sett inn nokkrar sögur af fólki sem að hefur haft áhrif á mig án þess að það viti af því. Hér kemur sú síðasta, ætli ég láti svo ekki staðar numið. "Ef hann hafði verið okkar fyrsta barn þá hefðum við ekki þorað að eignast fleiri" sagði faðir drengsins við mig. Tækifærin sem bjóðast okkur í lífinu eru misjöfn, ofast er það undir okkur sjálfum komið hvernig við förum með það sem okkur er gefið. En það átti ekki við um þennan dreng, það var eins og hann hefði aldrei átt möguleika í þessu lífi. Hann átti góða foreldra sem að gerði allt sem að þau gátu, en þetta var ekki í þeirra valdi. Drengurinn sýndi snemma mjög erfiða hegðun, hann ofgerði öllum, hann reyndi að vera góður en alltaf náði óeirðin yfirhöndinni og hegðunin fór úr böndunum. Geðlæknar sagði að það væri augljóst að það væri eitthvað mikið að en þeir gátu ekki staðsett það, þess vegna var stöðugt verið að prófa ný lyf á honum sem að ýmist höfðu engin áhrif eða slæm. Hann bjó í barnmörgu hverfi, en hegðun hans gerði það að verkum að hann einangraðist. Strax á leikskólaldri gáfust foreldrar upp á að fá hann í heimsókn til barna sinna, honum var ekki boðið í afmæli, hann rústaði þeim oftar en ekki. Foreldrar hans skildu alveg þessa afstöðu, engum sveið meira en þeim. Þegar hann svo átti afmæli sjálfur bauð hann alltaf öllu hverfinu, heimtaði svo að foreldrarnir yrðu tilbúnir með veislu fyrir allan fjöldann. Til að byrja með komu nokkrir, ekki viljugir, þeir áttu foreldra sem að fundu til með drengnum. En fljótlega gekk þetta ekki, það var ekki hægt að neyða börnin til að koma. Afmælisdagur hans varð því alltaf martröð, hann gafst ekki upp, bauð áfram öllu hverfinu og heimtaði undirbúning af foreldrum sínum. Þau vissu að enginn myndi koma og martröðin varð alls heimilisins. Hann kom til mín í júdó þegar hann var 9 ára. Ég þekkti ekkert til hans. Hann var frekar nettur miðað við aldur, fríður og með falleg brún augu. Fyrsta æfingin gekk vel, hann stóð sig mjög vel og allt gekk vel. Á næstu æfingu voru strákarnir að hita upp, þeir voru að hlaupa fram og aftur í júdósalnum. Allt í einu stöðvaði drengurinn, ég horfði á hann og sá að augnsvipurinn eins og myrkvaðist. Síðan byrjaði hann að ganga þvert á hlaupastefnu hinna strákanna, vægast sagt pirrandi fyrir þá. Ég skipaði honum ákveðið að hætta þessu en ég sá að hann var ekkert að hlusta á mig. Ég gekk því til hans og leiddi hann út að vegg og lét hann setjast niður. Hann sat við vegginn og barði höfðinu aftur og aftur í vegginn. Þegar ég reyndi að tala við hann þá náði ég engu sambandi. Þessir skellir voru þannig að ég var viss um að hann myndi skaða sig svo ég settist niður hjá honum, tók hann í fangið og hélt honum. Hann barðist um, beit og klóraði en ég hélt honum og lét sem ég yrði ekki var við lætin í honum, hélt bara áfram að tala við hina strákana eins og ekkert hefði í skorist. Eftir nokkra stund slaknaði á honum, ég spurði hann þá hvort að hann væri tilbúin til að halda áfram að æfa og hann játaði því, kláraði svo æfinguna hinn prúðasti. Næstu æfingar gengu eins, fyrirvaralaust myrkvuðust augun og hann fór að gera eitthvað sem að skemmdi fyrir hinum. Skammir virkuðu ekkert á hann, ef ég setti hann út að vegg fór hann að berja höfðinu við vegginn og endaði þá í fanginu á mér. Þetta var ekki að ganga sem best. Ég prófaði því að ræða við hina strákana um hann. Þeir sögðu mér að hann hefði byrjað með þeim í 1. bekk en hefði strax verið settur í sérskóla, þeir þyrftu því ekkert að hafa af honum að segja nema á júdóæfingum. Ég bað þá um að gera mér þann greiða að reyna að láta hegðun hans ekki trufla sig, ég ætlaði að sjá hversu langt hann myndi ganga ef að hann yrði látinn óáreittur. Á næstu æfingu eftir þetta fór allt í sama farið, en strákarnir stóðu sig vel, þeir létu sem þeir sæju hann ekki þegar hann var að pirra þá. Ég virti hann ekki viðlits heldur. Eftir nokkra stund bráði af honum og þá varð hann almennilegur aftur. Svona gekk þetta, ekki bara út veturinn, heldur í 4 ár. Strákarnir sem æfðu með honum voru ótrúlegir, þeir þurftu að þola margt. Stundum gaf þolinmæðin sig hjá þeim, skiljanlega. Oft var það þannig að þegar ég var að mæta á æfingu þá mætti ég drengnum á fleygiferð eftir gangi íþróttahússins og einhver bálvondur strákur á eftir honum. Ég skammaði aldrei strákana fyrir að missa sig, það hefði ekki verið sanngjarnt. Sjálfur missti ég líka þolinmæðina oft. Í eitt skiptið rak ég hann út að vegg. Það voru júdómyndir á veggnum, hann fór að berja höfðinu við eina myndina þannig að glerið brotnaði, þá missti ég alveg þolinmæðina og hann sá að ég var bæði reiður og sár. Daginn eftir fékk ég símtal frá kennara hans. Erindið var að biðja mig um að fyrirgefa honum og leyfa honum að koma aftur í júdó vegna þess að honum liði hvergi betur. Drengurinn hafði þá sagt kennaranum að nú hefði hann verið of erfiður og hann fengi örugglega ekki að koma á júdóæfingu aftur. Ég svaraði því til að það væri ekkert að fyrirgefa og hann myndi alltaf fá að æfa júdó, alltaf. Örlögin höguðu því þannig til að ég hætti að þjálfa júdó, dró mig alveg í hlé um tíma. Drengurinn hætti þá líka. Hann var þá kominn á unglingsár, var á 14 aldursári og hafði verið sendur aftur í hefðbundinn grunnskóla. Sá skóli vildi hins vegar ekki taka við honum og hann fékk mjög skýr skilaboð frá kennurum og öðrum starfsmönnum um að þeim væri alveg sama hvort að hann mætti í skólann eða ekki. Drengurinn upplifði því fullkomna höfnun enn einu sinni. Hann hætti því að mæta og fann sér fljótlega annan félagsskap, þar voru lyf í boði sem að hann fann vellíðan í, hann varð fíkill við fyrstu inntöku. Eftir þetta varð líf hans líf fíkilsins. Ég starfaði á lögmannsstofu og í gegnum störf mín þar lágu leiðir okkar saman aftur nokkrum árum síðar. Það voru fagnaðarfundir, vinskapurinn á milli okkar var einlægur. Eftir gott spjall komst ég að því að drengurinn hafði lent í vinnuslysi og var ansi laskaður eftir það. Lögmannstofan sem ég vann hjá sérhæfði sig í slysamálum svo við tókum mál hans að okkur. Hann varð daglegur gestur á skrifstofunni í marga mánuði meðan að við vorum að vinna í máli hans. Hann var virkilega að reyna að koma sér upp úr óreglunni. En það var ekki auðvelt, gamlar syndir bönkuðu stöðugt á dyrnar, ýmist í formi handrukkara sem að ruddust inn á foreldra hans eða þá rannsóknarlögreglumanna sem að grunuðu hann um flest það sem misfórst hér í bæ. En hann stóð sig vel. Bæturnar sem að hann fékk vegna slyssins veittu honum möguleika til að hefja nýtt líf. Hann hafði haldið sér edrú í nokkra mánuði, hirti sig orðið miklu betur og var jafnvel farinn að vera bjartsýnn á líf sitt. Hann hafði um nokkuð skeið verið í sambandi við stúlku sem að líka var fíkill. Hún hafði einnig staðið sig og nú var hún orðin ófrísk. Þau sáu fram á að geta keypt sér litla íbúð fyrir bæturnar og byrjað nýtt líf með barninu sem að var í vændum. Við á lögmannstofunni horfðum glöð á eftir unga parinu út af skrifstofunni hjá okkur þegar að hann fékk afhent lokauppgjör vegna bótamálsins, við vorum bjartsýn fyrir þeirra hönd. Nokkrum dögum seinna, að kvöldi til, sá ég til drengsins þar sem að hann var á gangi hér í bænum. Kærastan gekk í humátt á eftir honum. Ég þekkti útlitið á honum, honum leið ekki vel. Ég gekk til hans og spurði hvað væri að. Hann horfði á mig þessum fallegu brúnu augum, þau voru brostin. Hann hafði fengið boð um að koma í afplánun, nokkur gömul mál voru dæmd í einu lagi og það var engin miskunn. Það var vonlaust að hughreysta hann, hann var búinn að missa vonina. Unga parið féll líklega seinna þetta kvöld, þau fóru úr bænum, ég missti allt samband við þau. Barnið fæddist fjölfatlað, vímuefnaneysla móðurinnar hefur sennilega haft þar mikið að segja. Barninu var komið í fóstur hjá góðu fólki. Árin liðu. Ég frétti reglulega af honum, hann var stöðugt að lenda í vandræðum. Í alvarlegu slysi, sem að hann bar alfarið ábyrgð á sjálfur, slasaðist hann mikið. Ég hitti hann er hann útskrifaðist af sjúkrahúsinu, hann hafði mikla áverka. Við höfum haldið sambandi síðan, hann hefur ýmist verið í afplánun eða vistum á geðdeildum, skaðinn sem að hann er búinn að valda sjálfum sér er óbætanlegur. Í huga mínum er ein minning um þennan dreng sem alltaf kemur upp í hugann þegar ég hugsa til hans. Þegar hann hvar 12 ára keppti hann með okkur í liðakeppni 14 ára og yngri. Við sendum tvö lið til keppni. Annað liðið var komið í úrslitaviðureign en hitt liðið þurfti að vinna eina viðureigna í viðbót þannig að liðin okkur tvö myndu keppa til úrslita og við þannig vinna tvöfalt. Drengurinn var í liðinu sem átti eftir að vinna eina viðureign. Staðan var 2-2 og það hitti þannig á að hann þurfti að glíma úrslitaglímuna. Fyrirfram bjóst enginn við að hann myndi vinna, en nú voru allir með honum í liði. Allir æfingafélagarnir hvöttu hann óspart áfram, spennan var ólýsanleg. Og hann vann. Allir strákarnir fögnuðu honum innilega. Ég stóð álengdar og horfði í flotta hópinn minn stoltur. Allir voru þeir brosandi og kunnu sér ekki læti fyrir gleði. En hann fagnaði ekki. Yfir honum var undarleg ró sem ég hafði aldrei séð áður. Það var eins og hann væri hamingjusamur.
Posted on: Tue, 17 Sep 2013 13:08:01 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015