Póst-dramatíska leikskáldið Á svölum Loft-hostels situr - TopicsExpress



          

Póst-dramatíska leikskáldið Á svölum Loft-hostels situr sokkalaus ungur maður. Heimsókn hans hingað virðist tilraunakennd eins og leikritið sem hann reynir í ofboði að skrifa. Af svip hans að dæma gæti brugðið til beggja vona með velgengni verksins. Hann hefur tyllt sólgleraugunum upp á ennið svo þau þrýsta svörtu hárinu niður að rótum. Hann grúfir sig eymdarlega í minnisbókina. Hana skortir sál, skortir texta. Hláturinn glymur holum hljóm þegar bjórglösin skella saman og glampa í síðdegissólinni. Leikskáldið hefur glas sitt á loft eins og fórn til Skáldgyðjunnar og öldur gullins innblásturs flæða inn fyrir varir hans. Hann mundar sverð ritlistarinnar og svart blóð vellur úr síðunni. Hann rekur næstu síður á hol og brátt liggur heill her í valnum. Hann er hetjan á vígvellinum, snillingurinn í mannhafinu. Hann lokar bókinni ánægður. Póst-dramatíska meistaraverkið skal á fjalirnar sem fyrst. Hversu lengi er þess að bíða að hann herji á aðrar borgir eftir að hafa lagt Reykjavík undir sig? Hann sér í hillingum mikla sigurför, hann þarf að finna sér skip. Leikarar munu manna áhöfn hans. Big Ben skal jafnaður við jörðu og Eiffelturninn í mauk. Hann ýtir sólgleraugunum á nefið og hallar sér aftur. Mikið skelfing getur himinninn verið fallegur þegar hann klæðist heiðbláum sumarjakka. Að baki honum er hrærigrautur ferðamanna sem hafa klætt stóla sína í úlpur, helgarpabbar með ljósabrúnku og ungar konur í litríkum kjólum. Leikskáldið skoðar mannlífið letilega um stund en heldur svo heim á leið til að pakka fyrir heimsreisu sína.
Posted on: Thu, 18 Jul 2013 19:05:26 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015