Úr skýrslunni sem við vorum að fjalla um á Alþingi um - TopicsExpress



          

Úr skýrslunni sem við vorum að fjalla um á Alþingi um lagningu raforkustrengs: Augljóst má telja að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka með tilkomu sæstrengs og þar með tengingar við raforkumarkað Evrópu. Ætla má að framkvæmdin muni auka tekjur Landsvirkjunar verulega og þar með væntanlega arðgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs, þó að það sé í sjálfu sér ekki sjálfgefið. Þannig skapast tekjur sem nýta má til uppbyggingar velferðarkerfis og til að jafna þau neikvæðu áhrif sem fylgja hækkandi raforkuverði, með sérstakri áherslu á þá sem breytingin hefði mest áhrif á, svo sem lítil fyrirtæki sem nota tiltölulega mikla raforku, íbúa á köldum svæðum þar sem raforka er notuð til hitunar o.s.frv. Það er hins vegar engan veginn sjálfgefið að þessar væntanlegu auknu tekjur ríkissjóðs skili sér til þeirra sem hækkun raforkuverðs leggst þyngst á. Því er hugsanlegt að tilkoma sæstrengsins leiði til hærri útgjalda meginþorra almennings, án þess að það skili sér í betri opinberri þjónustu. Jafnvel þótt arðurinn skili sér til ríkissjóðs, kann hann að verða eftir hjá tiltölulega fáum einkaaðilum. Þessu fylgja neikvæð samfélagsleg áhrif sem birtast í ójafnari tekjuskiptinu en áður. Fræðilega séð er hægt að koma í veg fyrir þessi áhrif, en útilokað er að tryggja slíkt fyrirfram. Niðurstaðan ræðst af pólitískum ákvörðunum sem oft eru teknar undir verulegum þrýstingi frá fáum en stórum hagsmunaðilum. Miklar líkur eru á að hækkað raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja á Íslandi hafi tiltekin ruðningsáhrif sem dragi úr afkomumöguleikum sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja, svo sem örfyrirtækja í smærri byggðum. Ruðningsáhrif af svipuðu tagi eru þekktur fylgifiskur stórframkvæmda, þar sem smærri starfsemi sem fyrir er getur ekki keppt við hina nýju starfsemi, t.d. í launum, vaxtakjörum eða húsaleigu. Þannig getur tilkoma sæstrengs óbeint leitt til veiklunar tiltekinna atvinnugreina á landsvísu eða staðbundið, svo sem á svæðum þar sem raforka er nýtt til hitunar (svokölluðum „köldum svæðum“). Auk þeirra félagshagfræðilegu áhrifa sem hér hefur verið drepið á, má nefna að fjárfesting af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir mun væntanlega með einum eða öðrum hætti takmarka það fjármagn sem verður til ráðstöfunar í aðrar framkvæmdir, viðhald og rekstur þeirra innviða sem fyrir eru.
Posted on: Sat, 09 Nov 2013 12:05:44 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015