Foreldrar Chagalls voru alþýðufólk sem þurfti að strita til - TopicsExpress



          

Foreldrar Chagalls voru alþýðufólk sem þurfti að strita til að hafa í sig og á og þau héldu trú forfeðra sinna í heiðri. Faðir Chagalls vann á síldarmarkaði og segja má að síld hafi verið á borðum heima hjá þeim á hverjum degi. Oft má sjá síld og fisk í verkum Chagalls og er þar líklega vísun í fæðuna á borðum heima. En með það í huga hve jesúmyndin var honum mikilvæg gæti þetta einnig verið kristsvísun. Íkonahefð austurkirkjunnar var það trúarlega myndmál sem var ríkjandi í heimabyggð Chagalls og þar snýst allt um Jesú Krist. Þetta hefur haft áhrif á drenginn og mynd hans grafið um sig í sál hans og brotið sér leið á léreftið þegar listamaðurinn var að glíma við sjálfan sig, arfleifð sína og afstöðu til umhverfisins. Eins og kunnugt er mynda upphafstafir leyniorða kristinna manna orðið fisk á grísku, sem var lykill að samkomum þeirra þar sem þeir þurftu að fara huldu höfði. Hasidisminn var sú stefna sem ríkti meðal gyðinga í heimabæ Chagalls og hana má nefna heittrú innan gyðingdómsins. Þessi stefna einkennist af dramatískum frásögnum af leiðtogum, trúarhetjum, spámönnum, kraftaverkum og yfirnáttúrulegum fyrirbærum. Sagnahefðin er sterk og hátíðir og helgisiðir hafðir í heiðri. Marc Chagall braut hefð gyðinga og fjölskyldu sinnar með því að leggja stund á myndlist og sumir ættingja hans áttu erfitt með að skilja hana og viðurkenndu ekki og er þetta skiljanlegt þegar myndbann gyðinga er haft í huga. Vegna óttans við skurðgoðadýrkun ríkir þar bann við að gera myndir og líkneski af guði, helgum mönnum og yfirleit mönnum og dýrum, hverju nafni sem þau nefnast í lofti, á jörðu og undir. Þetta bann stendur skýrum stöfum í Gt og er hluti fyrsta boðorðsins. Múslimar og kalvínskar hreyfingar innan kristindómsins halda þetta myndbann og í kirkjum þeirra, moskum og bænahúsum eru yfirleitt hvorki manna- eða dýramyndir. Nýjar rannsóknir sýna að gyðingar fóru ekki alls staðar eftir þessu banni og þeir hafa haft ýmsar leiðir til að þróa sjónræna menningu sína, eins og kemur fram í því hvernig musteri þeirra var skreytt og samkomuhús þeirra, synagogurnar, útbúnar. Þar koma til helgigripir og tákn og er skemmst að minnast sjálfrar sáttmálsarkarinnar sem gætt var af tveimur kerúbum eins og kveðið er á um í annarri Mósebók (Exodus). Helgisiðirnir og sagnirnar eru gegnsýrðar frásögnum af fólki og fyrirbærum þessa heims og annars sem mynda ríkulegan táknhheim gyðinga. Við þetta bætast svo alþýðlegar þjóðsögur og ævintýri, frásagnir af dularfullum fyrirbærum og kraftaverkum sem úir og grúir af í alþýðutrú gyðinga, ekki sýst þeirri hefð sem Chagall ólst upp í. Þar má líka nefna kabbalismann sem teygir anga sína inn í dulspeki, gnostík og gullgerðarlist. Í öllu þessu lifði og hrærðist Chagall og það varð honum óþrjótandi uppspretta í myndlistarsköpun. Skortur á myndlistarhefð innan gyðingdómsins á sinn þátt í því frumlega og sérstaka myndmáli sem hann þróaði. Mystíkin og dulspekin er líka skýring enda er myndmál þessara stefna oft mjög skapandi og frjótt, náskylt draumum og goðsögnum og oft tengdara lifandi trúarlífi en niðurskrifaðir helgitextar. Þarna fann Chagall uppsprettu sköpunar sem liggur eins og mýstíkin oft gerir handan hins vitræna og rökræna sem bindur hefðirnar og festir táknmálið í fyrirframgefnar skorður. Hvers konar dulspeki, guðpseki, gnóstík og alkemía var ofarlega í hugum þeirra ungu listamanna sem brutu blað í myndlist í Evrópu á fyrstu árum og áratugum 20. aldar. Skáld og listamenn frá Austur-Evrópu og Rússlandi báru með sér slíkan áhuga inn í listamannanýlendurnar í höfuðborgum Evrópu, ekki síst í París þar sem Chagall bar að garði haustið 1910 óþreyjufullan eftir því að læra og tileinka sér það nýjasta í listsköpuninni þar. Chagall komst þar strax í kynni við áhrifamesta listagagnrýnandann í París á árunum fyrir fyrra stríð, en það var ljóðskáldið og lífskúnstnerinn Guillaume Apollinaire. Hann heillaðist af hinu súrrelistíska myndmáli Chagalls og kallaði það surnatúralisma, en þetta var áður en surrealisminn kom sér upp skilgreindri stefnu. Chagall gerði einkennilegar portretmyndir af þessum nýja vini sínum og velgerðarmanni og sló í gegn með stóru (209 x 198 cm) margræðu málverki sem hann tileinkaði honum og kallaði Homage to Apollinaire (önnur myndin). Verkið er í kúbískum stíl með hringlaga mandorlu utan um tvíkynja mannveru, Adam/Evu, sem heldur á ávexti skilningstrésins. Í þessu dularfulla verki og má greina skírskotun í alkemíu (tvíkynið og ávöxtinn/viskusteinninn) og kabbalisma (Adam sem hinn kosmíski frummaður). Þarna var verið að leggja grunninn að kúbismanum og Chagall kemur beint inn í þá gerjun alla og tekur þátt í þeirri tilraunstarfsemi eins og myndirnar frá þessum fyrstu Parísarárum hans bera skýran vott um. Hann kynnist þarna Pablo Picassó og áttu leiðir þeirra eftir að liggja oft saman. Á tímabili voru þeir góðir vinir en oft var metingur milli þeirra. Picasso hafði þegar árið 1907 brotið blað með fyrsta þekkta verkinu í kúbískum stíl, Ungfrúnum frá Avignon (þriðja myndin), þar sem hollustu við ríkjandi fagurfræði og hefðbundna þrívídd var kastað fyrir róða og fyrirbærin brotin upp og skoðuð út frá fleiri víddum og sjónarhornum. Hann vann í mörg ár náið með félaga sínum Georges Bracque og segja má að þeir hafi þróað kúbismann sem fljótt klofnaði eða fann sér ólíka farvegi í hliðarstefnur. Picasso fékk áhuga á listrænum helgigripum afrískra þjóðflokka í þessari nýsköpun sinni. Þessi tilraunastarfsemi opnaði einnig á pælingar um birtingarmyndir dulvitundarinnar sem Sigmund Freud hafði sett á dagskrá aldamótaárið með hinu mikla verki sínu um drauma og kynhvötina (libido) sem hreyfiafl sálarlífsins. Lærisveinn hans og líklegur arftaki sem leiðtogi hinnar nýju sálgreiningarstefnu, svissneski geðlæknirinn Carl Gustav Jung, þróaði hugmyndina um dulvitundina áfram og setti fram kenningu um sammannlega dulvitund þar sem forn minni og sálrænar orkustöðvar (erkitýpur) úr þróunarsögu mannkyns hafa grafið um sig og birtast í draumum og yfirskilvitlegri reynslu af ýmsu tagi. Jung leitaði í dulspeki og austræn fræði til að átta sig betur á þessum öflum og hinum nýju víddum sálarlífsins sem þessi nálgun opnaði á. Sjálfskoðun hans beindi áhuga hans að goðsögnum trúarbragðanna, austrænni dulspeki og helgilist svokallara frumstæðra þjóðflokka í Afríku og Ameríku. Jung tengdis tilraunahópi myndlistarmanna og ljóðskálda sem kenndu sig við dadaisma (óvisku) og var boðið að taka þátt í sýningu þeirra í Zurich. Myndlistin var Chagall trúarleg köllun og hann þurfti ekki að fara í synagogu eða kirkju til að iðka trú sína. Stúdíóið, óháð í hvaða landi hann bjó í hverju sinni, var hans helgi- og bænastaður og Biblían uppsprettan að því ótrúlega magni myndlistar í ýmsum formum, málverk, glerverk, leiktjöld og keramík, sem frá hans höndum streymdi. Guðfræðingar eiga eftir að skoða betur framlag hans til að færa gyðinga og kristna menn nær hvor öðrum. Krossfestingarmyndir hans byggðu brú milli þessara ólíku trúarbragða sem hafa fjandskapast í tvö þúsund ár. Myndheimur Chagalls er sjálfstætt framlag til samræðna og samskipta milli ólíkra trúarbragða (inter-faith) og um leið framlag til heimslistarinnar. Chagall á heiðurinn að því að Jesús Kristur krossfestur er í friðarglugganum sem nú prýðir aðalstöðvar Sameinuðuþjóðanna í New York. Hann var beðinn að gera þetta glerlistaverk og trúr sínum innra manni og skilningi á glerlistinni sem glugga milli heimanna þurfti ekki að biðja hann að láta ljósið skína í gegnum þann sem kallaður var friðarhöfðingi og frelsari heimins. Andinn í verkum Chagalls ber vott um sérstaka handanlæga vídd (spirituality) sem er óháð stofnanalegum trúarbrögðum en gegnumsýrir með innblæstri alla sem á einhvern hátt tengjast trúarbrögðum sem byggja á Biblíunni. Ég fæ heldur ekki betur séð en myndlist Chagalls eigi sér einnig samsvörun í ýmsu í indverskri og kínverskri myndlist þar sem sjá má lík leikandi og létt form óháð jarðneskum takmörkunum sem eru bæði barnsleg og háþróuð í senn. Árið 1973 var sérstök stofnun sett á laggirnar um verk Chagalls í Nice í Frakklandi. Chagall sem var með í ráðum á öllum undirbúningsstigum þess vildi ekki hafa þetta hefðbundið safn, heldur andlega stofnun og það átti ekki að heita Chagallsafnið heldur: The National Museum for the Biblical Message. Við vígsluna sagði hann í ræðu sinni: „Ef til vill mun þeir af ungu kynslóðinni, og jafnvel þeir eldri, sem þrá – eins og litirnir mínir og línurnar – bræðralag allra manna og kærleika, koma í þetta hús.“
Posted on: Sun, 03 Nov 2013 05:26:46 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015