Olíurisarnir verja billjörðum dollara í leit að nýjum - TopicsExpress



          

Olíurisarnir verja billjörðum dollara í leit að nýjum olíulindum og aðferðum til að vinna jarðefnaeldsneyti úr jarðlögum, skeyta engu um óafturkræf áhrif á náttúruna og lífríki jarðar. Meginástæða til þessarar vitfirrtu dauðaleitar að nýtanlegum olíuuppsprettum er sú að virði olíurisanna á hlutabréfamarkaði ræðst af því eingöngu hvort þeir geti á hverju ári sýnt fram á að þeir hafi úr nægjanlegri olíu að moða í fyrirsjáanlegri framtíð. Ef ég ætlaði að selja Landsvirkjun (segjum t.d. ef mig vantaði fjármuni til þess að efna kosningaloforð sem ég gaf öðrum manni í fljótræði) myndi ég bera mig að með þessum hætti: Í fyrsta lagi gæfi ég það í skyn óljósum orðum að ég væri að velta því fyrir mér að hætta að eiga Landsvirkjun. Í öðru lagi réði ég til starfa í embætti umhverfisráðherra, atvinnu- og iðnaðarráðherra fólk sem ég vissi að myndi berjast fyrir því með oddi og egg að hægt væri að virkja hverja virkjanlega sprænu og foss á Íslandi og laða til landsins vænlega kaupendur á raforku til stóriðjuvera. Í þriðja lagi felldi ég úr gildi lög og regluverk sem gætu bundið hendur væntanlegs kaupanda ef hann vildi virkja vatnsföll á Íslandi eins og frekast er kostur, t.d. náttúruverndarlög og rammaáætlun. Í fjórða lagi léti ég sérfræðinga Landsvirkjunar undirbúa á teikniborðinu helstu virkjunarkosti, sem fyrirtækið gæti ráðist í á næstu 20 til 25 árum, og gengi þannig frá málum að barátta umhverfisverndarsinna gegn umdeildum kostum eins og Norðlingaölduvirkjun væri ekki til neins. Í fimmta lagi gæfist ég ekki upp á því að finna út með einhverjum hætti og láta Landsvirkjun kynna á fjölmennum, alþjóðlegum fundum í Hörpu að yrði hagkvæmt á næstu árum að selja raforku um streng til Bretlands. Í framhaldi af því léti ég sérfræðinga Landsvirkjunar leggja drög að virkjunum sem gætu fullnægt raforkuþörfinni um þennan streng og aflétti friðun af vatnsföllum sem yrði að virkja í þessu skyni. Í sjötta lagi léti ég þau boð út ganga að erlendir væntanlegir kaupendur raforku af Landsvirkjun biðu í röðum á göngum stjórnarráðsins eftir því að ná tali af ráðherra. Að svo búnu og þegar ég væri búin að ganga úr skugga um að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, ætluðu fæstir að láta mótmæli hinna raunverulegu eigenda íslenskrar vatnsorku, almennings á Íslandi, hafa áhrif á afstöðu sína – léti ég þau boð út ganga til erlendra fjárfesta að Landsvirkjun væri til sölu til hæstbjóðanda.
Posted on: Thu, 14 Nov 2013 09:39:27 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015