Pistill pensjónistans. Af stórvirkum - TopicsExpress



          

Pistill pensjónistans. Af stórvirkum vinnuvélum Pensjónistinn man svo aftur til þess tíma, þegar stórvirkar vinnuvélar voru fágæt tæki. Hann minnist þess mikla atburðar þegar skurðgrafan kom fyrst í sveitina, þetta flannastóra skröltandi ferlíki, sem skrönglaðist yfir móann og út í votlendið, lagði flugvélamottur undir beltin með risavaxinni bómunni og hóf síðan að rífa upp mýrina með gríðarlegu offorsi. Skurðgrafan skóflaði landinu upp til beggja hliða og mýrarrautt vatnið ólgaði og flæddi allt um kring yfir fætur viðstaddra eins og blóð á blóðvelli. Sveitastrákurinn stóð stóreygur meðal bændanna, með höndur í vösum eins og þeir og horfði á undrið, hvernig skurðurinn dýpkaði og lengdist með ótrúlegum hraða og varð óyfirstökkvanlegur. Bændurnir í kring tvístigu aðdáunarfullir og voteygir af hrifningu yfir því að nútíminn var loksins mættur í sveitina með vélaskrölti og bensínfnyk, sem lék ljúflega bæði í eyrum og nösum . Vélamennirnir voru hetjur, sem unnu á vöktum allan sólarhringinn, því ekki mátti slá slöku við, mýrarnar biðu út um allar sveitir, um allt land. Þeir skiptust á að sofa, komu gangandi heim úr mýrinni á vaktaskiptum, smurolíulyktandi ofurmenni, rómantískir bjargvættir eins og kúrekar vilta vestursins, sem allir dignuðu í hnjánum frammi fyrir. Þeir nutu lífsins, gáfu bónda romm út í sykurvatnið með kvöldhressingunni og sendu húsfreyju leyndardómsfullt augnaráð undir miðnættið. Um svipað leiti, komu jarðýturnar, sem réðust líka á landið, ruddu því saman í vegi og fyrirstöður með slíkum afköstum að annað eins hafði aldrei áður sést og fjölmennir vinnuflokkar urðu samstundis óþarfir og þurftu að fá sér aðra vinnu. Í skjóli tröllaukinna vinnuvéla, sem tættu upp landið, ræstu fram mýrarnar og slitu í sundur móann, hófst velmegunartímabil landsins barna, knúið áfram af gagnrýnislausri harðneskju gagnvart náttúrunni og stendur reyndar enn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar, síðan stígvélafullur sveitastrákur stóð í mýrinni forðum og virti fyrir sér innreið nútímans. Veröldin hefur tekið gagngerum breytingum, en aðdáun íslenskra karla á öllu því sem er stórt og getur rutt frá sér miklu af mold og grjóti hefur samt ekkert slotað og nú hefur ríkisstjórnin af öllum sínum myndugleika boðað nýjar mikilfenglegar framkvæmdir, nú skal ráðist í ný hervirki gegn náttúrunni. Pensjónistanum finnst ógnvekjandi að horfa upp á öll þessi áformuðu ósköp í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar, að sjá menn enn standa gleiðfætta með hendur í vösum í sinni blautu mýri og horfa fullir aðdáunar á landið tætt niður í manngerðann óþarfa og óskapnað. Það er eins og ekkert hafi breyst - en þó hefur allt breyst. Jón Hjartarson
Posted on: Wed, 23 Oct 2013 13:07:36 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015