Boð með nágrannakonu í biblíulestur Nágrannakona mín - TopicsExpress



          

Boð með nágrannakonu í biblíulestur Nágrannakona mín bauð mér með sér í síðustu viku í biblíulestur. Nokkrar konur úr fjölskyldu hennar hittast vikulega og lesa saman úr biblíunni og ræða guðsorð. Þótt ég hafi alltaf haft mína trú fyrir mig, hef ég ekki verið mjög kirkjurækin eða gert mikið af því að lesa úr biblíunni. Ég þáði samt með þökkum þetta boð. Það er á fimmtudögum kl. 6 um eftirmiðdaginn, sem nágrannakona mín og 4 aðrar konur hittast í þessum tilgangi. Þær eru flestar mótmælendatrúar, en hér í landi eru nær allir kaþólskir. Nágrannakona mín ásamt tengdamóður sinni, tveimur mágkonum og einni frænku mynda leshópinn og búa þær allar í göngufæri hver frá annarri. Lesturinn fer fram í íbúð annarrar mágkonunnar, en sú býr á hæðinni fyrir neðan tengdaforeldra sína. Lesturinn átti að hefjast kl. 6. Hér er stundvísi ekkert endilega að mæta á tilsettum tíma, en eitthvað svona rúmlega það sem tiltekið er. Konurnar voru að tínast inn til hálfsjö. Þegar allar voru mættar hófst athöfnin með hátíðarblæ. Fundarmenn skiptust á að lesa ritningar, sem húsráðandi hafði fyrirfram ákveðið og efnið síðan túlkað og rætt fram og tilbaka. Flestar lögðu eitthvað til málanna. Ég var bara áheyrandi, en þó spurðu þær mig, hvort ég vildi lesa eina ritningu sem ég og gerði. Þær klöppuðu fyrir mér eftir lesturinn og sögðust allar hafa skilið. Þetta var um klukkustundar athöfn. Í lok stundarinnar, spurði sú sem stjórnaði athöfninni, hvort ég ætti börn. Ég sagði að ég ætti 5 börn, þar af væru 3 barna minna gift. Einnig ætti ég 10 barnabörn og 1 barnabarnabarn. Þær báðu síðan fyrir öllum mínum afkomendum og fjölskyldu. Það var mjög fallegt og notalegt. Eftir lesturinn og bænirnar bauð tengdamanna upp til sín í kaffi. Þar var mér strax boðið inn í stofu og settist nágrannakona mín hjá mér. Eftir nokkra stund var komið með kaffibolla og brauð handa mér einni. Ekkert bólaði á hinum úr hópnum inn í stofuna. Þegar ég spurði hvort þær væru farnar, spurði nágrannakona mín undrandi hvort ég vildi koma til þeirra inn í eldhúsið. Það vildi ég frekar og færðum við okkur þangað. Þar sátu hinar úr hópnum og drukku kaffi og þar var notaleg stemning. Mér var tekið vel, en allar virtust svolítið hissa á því að ég sem nýr gestur vildi ekki frekar sitja inn í stofunni. Ekki veit ég hvort ég fæ annað boð í biblíuleshringinn eða hvort ég myndi þiggja það, ætti ég kost á því. En gaman var að upplifa eitt slíkt boð. Kv. Tóta
Posted on: Wed, 20 Nov 2013 03:18:53 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015